154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Á þessu ári er búið að nýskrá 7.645 bíla sem ganga fyrir bensíni eða dísil að öllu eða einhverju leyti. Þessir bílar verða flestir alveg í fínu lagi 2025, 6, 7, 8. Þeir verða flestir í fínu lagi 2030. Á síðasta ári voru svona bílar sem voru nýskráðir yfir allt árið, af því að hérna erum við náttúrlega bara að tala um árshlutatölur, 12.000 talsins. Það er bara heill hellingur til af bílum sem munu vera fullboðlegir næstu árin þó að við myndum hætta að flytja inn og nýskrá bensín- og dísilbíla. Spurningin er: Ætlum við að leyfa nýskráningu á 12.000 bensín- og dísilbílum á ári í ár og næsta ár og eitthvað á þessum skala alveg til 2030 sem síðan verða hér á götunum til 2040 og spúa út koltvísýringi sem við þurfum að ná niður fyrir þann tíma? Við þurfum að gera allt; við þurfum að byggja upp hleðslunetið og við þurfum að búa í haginn fyrir öll umskiptin. Við þurfum að gera þetta allt samhliða. Við getum ekki beðið eftir því að allt verði tilbúið til að geta síðan tekið í gikkinn. Það ætti ekki að vera mikið mál, held ég, að flýta banni við nýskráningum bensínbíla vegna þess að það er til nóg af þeim á götunum í dag. Eins og ég segi: Þetta var frekar skýr niðurstaða þegar Orkustofnun kynnti orkuspárlíkanið. Þetta snýst bara um það hvort við ætlum að standast skuldbindingar (Forseti hringir.) og með því að hleypa fleiri bensínbílum á göturnar þá erum við að segja: Nei, við ætlum ekkert endilega að standast þær.